Brasilíumaðurinn Maicon er í dag orðaður við Manchester City í enskum fjölmiðlum en hann er á mála hjá Inter á Ítalíu.
Maicon hefur einnig verið orðaður við Manchester United í dágóðan tíma en umboðsmaður hans, Antonio Caliendo, vildi þó ekkert tjá sig um þá orðróma í ítölskum fjölmiðlum í dag.
„Maicon er stórt nafn í knattspyrnuheiminum og besti leikmaður heimsins í sinni stöðu,“ sagði umboðsmaðurinn. „En framtíð hans er í höndum Inter. Ef félagið fær tilboð sem forseti þess er tilbúinn að skoða erum við reiðubúnir til viðræðna.“
Spurður um áhuga United vildi Caliendo ekkert tjá sig um það.