Filippo Inzaghi skoraði sitt 300. mark á ferlinum í 5-1 sigri AC Milan á Siena í ítölsku A-deildinni í dag.
Inzaghi sem er orðinn 35 ára gamall, skoraði tvö marka AC Milan í leiknum og hefur þar með skorað fimm mörk í síðustu tveimur leikjum liðsins.
Inzaghi er nú orðinn fjórði markahæsti Ítalinn frá upphafi en hann á enn nokkuð í land að ná þeim markahæsta. Silvio Piola skoraði 364 mörk á árunum 1929 til 1954.
„Í dag fagna ég afreki sem fyllir mig miklu stolti. Örlögin eru oft ótrúleg og svo vill til að ég skoraði 300. markið mitt á útivelli á móti Siena alveg eins og ég skoraði fyrsta markið mitt á útivelli á móti Siena," sagði Inzaghi sem lék þá með Leffe í Cdeildinni á Ítalíu 1992-93.
Inzaghi lék með Piacenza, Leffe, Verona, Parma, Atalanta og Juventus áður en hann kom til AC Milan árið 2001.
Inzaghi hefur skorað 25 af þessum mörkum í 57 leikjum fyrir ítalska landsliðið.