David Beckham hefur leikið sinn fyrsta leik fyrir ítalska stórliðið AC Milan. Hann var í byrjunarliði Milan sem gerði 1-1 jafntefli við þýska liðið Hamborg í æfingaleik í Dubai.
Beckham lét ekki mikið að sér kveða en slapp þó ágætlega frá leiknum. Hann fór af velli í hálfleik.
Ronaldinho kom Milan yfir með marki úr vítaspyrnu í seinni hálfleik en fjórum mínútum síðar jafnaði Benjamin fyrir Hamborg. Til að útkljá sigurvegara fór fram vítaspyrnukeppni en þar vann AC Milan 4-3 sigur.
Óttast var að Beckham gæti misst af leiknum vegna meiðsla sem hann hlaut á æfingu en hann var úrskurðaður leikfær í skoðun fyrir leik. Hann er hjá Milan á lánssamningi frá LA Galaxy.