Varaformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs segir að engin geti sett ófrávíkjanleg skilyrði í stjórnarmyndunarviðræðum. Þetta kom fram í máli Katrín Jakobsdóttur í kosningaumræðuþætti fréttastofu - Hvernig á að bjarga Íslandi? - í gær. Áður hafði Árni Páll Árnason, oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, sagt að aðildarviðræður við Evrópusambandið væri fyrsta mál á dagskrá og brýnasta verkefnið framundan. Samfylkingin myndi leggja höfuðáherslu á Evrópusambandsaðild í stjórnarmyndunarviðræðum að loknum kosningunum á laugardaginn.
Að auki sagði Björgvin G. Sigurðsson, flokksbróður Árna Páls, á borgarafundi Ríkissjónvarpsins í gær að að hann útilokaði samstarf við Vinstri græna nema að ágreiningur um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði til lykta leiddur.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í gær að Evrópumálin gætu valdið stjórnarkreppu.
Gallar við tvöföldu leiðina
„Við höfum talað fyrir því að þetta mál þurfi að leysa á lýðræðislegan hátt með þjóðaratkvæðagreiðslu meðal íslensku þjóðarinnar því það er ljóst að skiptar skoðanir eru um þetta mál," sagði Katrín. Þá sagði hún að engan geta sett ófrávíkjanleg skilyrði í stjórnarmyndunarviðræðum. Ákvörðun varðandi Evrópumál megi ekki taka í asa.
„Við höfum rætt auðvitað ýmsar leiðir bæði tvöfalda og einfalda. Ekki tekið sérstaka afstöðu til þess en lykilatriði er að þetta verði afgreitt á lýðræðislegan hátt. Það eru ákveðnir gallar á þessari tvöföldu aðferð," sagði Katrín.
Hvernig á að bjarga Íslandi í kvöld
Fréttastofan mun taka púlsinn á stefnu stjórnmálaflokkanna strax að loknum kvöldfréttum Stöðvar 2 alla vikuna. Þar munu Heimir Már Pétursson og Sólveig Bergmann krefja frambjóðendur allra framboðanna svara um hin ýmsu mál. Í kvöld verða fulltrúa þeirra spurðir hvernig flokkarnir ætli að brúa 150 milljarða fjárlagahalla.
Hægt er að horfa á þáttinn frá því í gær hér.