Sjálfstæðisflokkur braut lög þegar hann veitti þrjú hundruð þúsund króna styrk frá Neyðarlínunni viðtöku. Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir að honum hafi ekki verið kunnugt um að styrkveitingin væri lögbrot. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Vísir sagði frá því fyrr í dag að Neyðarlínan hefði styrkt Sjálfstæðisflokkinn um þrjúhundruð þúsund krónur samkvæmt yfirliti Ríkisendurskoðunar um fjárframlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka.
Framkvæmdarstjóri Neyðarlínunnar er Þórhallur Ólafsson, sem áður var aðstoðarmaður Þorsteins Pálssonar þegar hann gengdi ráðherradómi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Í lögum um fjárframlög til stjórnmálaflokka kemur fram stjórnmálaflokkur má ekki taka við framlögum frá fyrirtækjum sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera.
Þegar Neyðarlínan styrkti Sjálfstæðisflokkinn þá átti ríkið rúm 53 prósent í Neyðarlínunni. Þá átti Landsvirkjun, sem er í ríkiseigu, einnig hlut í Neyðarlínunni.
Þess ber þó að geta að Neyðarlínan var hlutafélag á þeim tíma, það var ekki fyrr en eftir þingkosningar 2007 sem það breyttist í opinbert hlutafélag.