Hljómsveitin Gusgus hefur hafið upptökur á sinni sjöttu plötu í Tankinum við Önundarfjörð. Sveitin dvelur í hljóðverinu í níu daga og er áætlaður útgáfudagur í byrjun næsta árs.
Vinnuheiti plötunnar er 24/7 og hefur sveitin prufukeyrt nýju lögin á tónleikum sínum víða um heim að undanförnu, þar á meðal í Rússlandi, Þýskalandi, Japan og á Englandi við góðar undirtektir.
Eftir að upptökunum lýkur fer Gusgus til Berlínar 10. desember þar sem sveitin spilar á tónleikum á vegum nýrrar bókunarstofu sinnar, Wilde Bookings. Á meðal annarra listamanna sem fyrirtækið er með á sínum snærum eru Booka Shade og Lopazz.