Árni Gautur Arason mun í kvöld mæta sínum gömlu félögum í Vålerenga er hann mætir þeim með sínu núverandi liði, Odd Grenland, í undanúrslitum norsku bikarkeppninnar.
Veigar Páll Gunnarsson, Pálmi Rafn Pálmason og félagar í Stabæk komust í gær í úrslit bikarkeppninnar og er því möguleiki á því að um Íslendingaslag verði að ræða í úrslitunum.
Árni Gautur hefur tvívegis áður tekið þátt í úrslitaleik norsku bikarkeppninnar, í bæði skiptin með Rosenborg. Annar þeirra vannst en Árni Gautur sat á bekknum í báðum viðureignum.
„Það væri gaman að spila úrslitaleik þar sem ég byrja inn á og legg eitthvað fram," sagði Árni Gautur í samtali við Nettavisen í Noregi.
„Auðvitað er það svolítið sérstakt fyrir mig að mæta gömlu félögunum. En nú spila ég með Odd og ég ætla mér með því liði í bikarúrslitin. Svona getur fótboltinn verið."