Guðmundur Stephensen og félagar hans í sænska liðinu Eslövs tryggðu sér í dag sæti í úrslitaeinvíginu um meistaratitilinn í borðtennis þegar þeir unnu öruggan sigur á Artemark í undanúrslitum 5-2.
Þetta var síðari undanúrslitaviðureign liðanna og Eslövs vann þá fyrri örugglega líka 5-0.
Eslövs varð á dögunum deildarmeistari í Svíþjóð og er nú að leika til úrslita fjórða árið í röð. Þar mætir liðið Halmstad.
Guðmundur spilaði tvo leiki í dag og vann öruggan 3-0 sigur í báðum leikjum.