Knattspyrnusamband Spánar hefur ákveðið að hunsa ríkisstjórn landsins sem hafði farið fram á að kosning í embætti sambandsins ætti að fara fram fyrr en áætlað var.
Íþróttamálaráðuneyti Spánar skipaði öllum íþróttasamböndum í landinu sem væru ekki hluti af Ólympíuhreyfingunni að halda kosningar fyrir Ólympíuleikana í Peking í sumar.
Sepp Blatter, forseti FIFA, sagði í kjölfarið að ef þetta yrði gert yrðu spænskum landsliðum og félagsliðum meinuð þátttaka í alþjóðlegum keppnum, svo sem EM 2008, Meistaradeild Evrópu og UEFA-bikarkeppninni.
Stjórn spænska knattspyrnusambandsins ákvað hins vegar í gær að hunsa tilmæli ríkisstjórnarinnar.
Spánn og Svíþjóð tryggðu sér þátttökurétt á EM með því að lenda í tveimur efstu sætunum í sínum riðli í undankeppni mótsins. Norður-Írland varð í þriðja sæti og hefði tekið sæti Spánar hefði liðið verið útilokað frá EM í Austurríki og Sviss í sumar.