Sinisa Mihajlovic hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri ítalska úrvalsdeildarliðsins Bologna í stað Daniele Arrigoni sem var rekinn í dag.
Mihajlovic lék lengi með Sampdoria og Lazio en hann lagði skóna á hilluna í lok tímabilsins 2006 eftir að hafa leikið í tvö ár með Inter. Þá var hann ráðinn aðstoðarþjálfari Roberto Mancini en báðir voru þeir látnir fara síðastliðið vor. Jose Mourinho var svo ráðinn stjóri Inter.
Mihajlovic er Serbi og á að baki 63 landsleiki með landsliðum Serbíu og Svartfjallalands sem og Júgóslavíu.
Bologna er í næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig eftir tíu leiki. Reggina, lið Emils Hallfreðssonar, er í neðsta sæti með fimm stig. Bologna tapaði um helgina fyrir Cagliari á útivelli, 5-0, og hefur aðeins unnið einn leik af síðustu níu deildarleikjum.