Skotinn Andy Murray vann í dag sigur á Roger Federer á Masters-mótinu í tennis sem fer fram í Sjanghæ þessa dagana.
Átta bestu tennisspilurum heims er boðið þátttaka á mótinu og er þeim skipt í tvo riðla. Tveir efstu úr hvorum riðli komast áfram í undanúrslit en Federer þurfti nauðsynlega á sigri að halda í dag til að komast áfram. Murray var hins vegar þegar búinn að tryggja sér sæti í undanúrslitunum.
Federer þurfti að glíma við bakmeiðsli í viðureigninni í dag og vann Murray í tveimur gegn einu, 4-6, 7-6 og 7-5.
Gilles Simon komst áfram úr sama riðli eftir að hann lagði Tékkann Radek Stepanek.
Murray mætir Nikolay Davydenko í undanúrslitum en Simon leikur gegn Novan Djokovic.