Landsliðsmaðurinn Miroslav Klose var hetja Bayern Munchen í dag þegar hann tryggði liðinu 1-0 sigur á Karlsruhe á útivelli. Þetta var fyrsti sigur Bayern í meira en mánuð en óvíst er hvort hann nær að aflétta pressuna sem er á Jurgen Klinsmann þjálfara.
Kraftaverkaliðið Hoffenheim skaust á toppinn eftir 5-2 stórsigur á Hannover eftir að hafa verið undir 2-1 í síðari hálfleiknum. Fjögur mörk á þrettán mínútum tryggðu nýliðunum toppsætið þar sem það hefur hlotið 16 stig í átta leikjum.
Hamburg er í öðru sætinu með jafnmörg stig en lakari markatölu - og getur raunar náð toppsætinu á nýu með jafntefli eða sigri gegn Schalke á heimavelli á morgun.
Leverkusen er í þriðja sæti með 15 stig eftir 2-0 sigur á Frankfurt og Hertha hefur 14 stig eftir 2-1 sigur á Stuttgart í dag.
Bayern Munchen er enn í neðrihlutanum með aðeins 12 stig eftir þriðja sigurinn á leiktíðinni í dag. Liðið situr í 11. sætinu.
Werder Bremen er annað stórlið í Þýskalandi sem gengur ekki sérlega vel. Liðið er um miðja deild líkt og Bayern eftir 3-3 jafntefli við Dortmund á heimavelli.
Úrslitin í dag í Þýskalandi:
Köln 1-0 Energie Cottbus
Frankfurt 0-2 Leverkusen
Hanover 2-5 Hoffenheim
Hertha Berlin 2-1 Stuttgart
Karlsruhe SC 0-1 Bayern
Wolfsburg 4-1 Bielefeld
Werder Bremen 3-3 Dortmund