Markvörðurinn Marco Ballotta hjá Lazio er ekkert á þeim buxunum að hætta knattspyrnuiðkun þó hann sé orðinn 44 ára gamall.
Ballotta er elsti leikmaður sem spilað hefur leik bæði í ítölsku A-deildinni og Meistaradeildinni.
"Ég ætla að spila eitt ár í viðbót. Þetta er bara svo gaman að ég get ekki hugsað mér að hætta," sagði hinn síungi markvörður sem lengst af spilaði með Modena. Hann vann sér sæti í byrjunarliði Lazio á síðustu leiktíð þegar gamla brýnið Angelo Peruzzi lagði hanskana á hilluna.