Fótbolti

Zlatan tryggði Inter sigur á botnliðinu

Zlatan Ibrahimovic var enn og aftur á skotskónum hjá Inter
Zlatan Ibrahimovic var enn og aftur á skotskónum hjá Inter AFP

Zlatan Ibrahomovic var hetja Inter Milan í dag þegar hann skoraði tvö mörk á síðustu ellefu mínútunum og tryggði liði sínu 4-2 sigur á botnliði Chievo.

Meistarar Inter hafa þar með náð níu stiga forystu á toppi A-deildarinnar, en AC Milan og Juventus, sem eru jöfn að stigum í öðru til þriðja sæti, mætast í Tórínó síðar í kvöld.

Napoli skaust upp að hlið AC og Juve með 3-0 sigri á Lecce í gær.

Inter virtist vera með unninn leik í höndunum eftir mörk frá þeim Maxwell og Dejan Stankovic, en gestirnir frá Chievo gáfust ekki upp og jöfnuðu leikinn. Það var svo sænski markahrókurinn sem gerði út um vonir Chievo um stig með mörkunum tveimur í lokin.

Roma lenti í svipuðu basli með Cagliari á heimavelli þar sem liðið þurfti sigurmark frá Mirko Vucinic í lokin til að tryggja sér 3-2 sigur. Grannar Roma í Lazio gerðu æsilegt 3-3 jafntefli við Udinese á útivelli eftir að hafa lent 3-0 undir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×