Tónlist

Órafmagnaðir Fjallabræður

Fjallabræður syngja í Þjóðminjasafninu á sunnudaginn og flytja þar sitt nýjasta lag, Hó.
Fjallabræður syngja í Þjóðminjasafninu á sunnudaginn og flytja þar sitt nýjasta lag, Hó. mynd/hörður sveinsson

Karlakórinn Fjallabræður frá Flateyri heldur tónleika í Þjóðminjasafninu á sunnudaginn. Þar flytur hann sitt nýjasta lag sem nefnist Hó og er að finna á plötunni Jól í Rokklandi sem er nýkomin út.

„Það vill svo skemmtilega til að mamma hans Bárðar sem prýðir „singulinn“ fyrir jólalagið okkar vinnur í Þjóðminjasafninu. Það kom til tals hvort við ætluðum ekki að spila bráðum og þá lá beint við að spila í Þjóðminjasafninu,“ segir Stefán B. Önundarson Fjallabróðir. „Við erum líka að taka upp myndband við jólalagið og ætlum að nota Þjóðminjasafnið í hluta af því. Fyrst við erum komnir í lakkskó og bindi, af hverju ekki að nýta það?“

Lagið Hó, þar sem kórinn syngur undir dynjandi rokki, var tekið upp sama dag og það var æft af einhverju viti í fyrsta skipti. „Þannig gerast kaupin á eyrinni,“ segir Stefán. „Það tók viku að semja það og við vorum í einn dag að taka það upp.“

Hann segir Fjallabræður ætla að syngja sex til sjö lög í Þjóðminjasafninu og í þetta sinn verði allt saman órafmagnað, þ.e. án þess að hljóðnemar verði notaðir. „Núna þurfum við að sýna virkilega hvað í okkur býr þegar hljóðmaðurinn getur ekki lækkað í ákveðnum mönnum,“ segir Stefán og bætir við: „Það er löngu kunnugt að við erum ekki besti karlakór á Íslandi en við erum bestu karlmenn í kór á Íslandi.“

Ókeypis er á tónleikana á sunnudaginn og hefjast þeir klukkan 16.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×