Ronaldinho segist hafa skoðað það alvarlega að ganga til liðs við Manchester City í sumar en hann ákvað á endanum að fara til AC Milan.
Ronaldinho var á mála hjá Barcelona á síðustu leiktíð en lék þó lítið með liðinu síðustu mánuði sína þar. Á þeim tíma reyndi City af fremsta megni að fá Ronaldinho til félagsins.
„Bróðir minn ræddi margsinnis við fulltrúa City," sagði Ronaldinho í samtali við tímaritið FourFourTwo. Bróðir Ronaldinho er einnig umboðsmaður hans.
„Verkefnið sem félagið á fyrir höndum er mjög spennandi og myndi vekja áhuga hvaða leikmanns sem er. City gæti senn orðið eitt besta félag Englands."
„Það eru margir afar góðir knattspyrnumenn á leið til City og bróðir minn skoðaði tilboð félagsins mjög vel."
„En Silvio Berlusconi (eigandi AC Milan) hefur sagt í mörg ár að hann vilji fá mig og mér fannst það henta mér vel að fara þangað nú."