„Það er óvíst að þetta nái flugi ef þetta verða bara innbyrðis kaup milli heildsala,“ segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
Landsnet stefnir að því að í haust hefjist heildsölumarkaður með raforku. Þetta er gert að norrænni fyrirmynd og gengur þannig fyrir sig að gerð eru kaup- og sölutilboð í raforku, jafnvel á tveggja klukkustunda fresti, allan sólarhringinn. Fyrirkomulagið yrði í sjálfu sér ekki ólíkt verðbréfamarkaði, þar sem stöðug verðmyndun á sér stað.
Þorsteinn Hilmarsson segir hugmyndina góða. „Mér líst mjög vel á þetta ef stórir notendur verða virkir á markaðnum.“ Þar vísar Þorsteinn til fyrirtækja eins og Eimskips, Samskipa og Baugs. „Það yrði verra ef þetta yrðu bara innbyrðis viðskipti milli heildsala.“
Um 12.000 gígavattstundir voru framleiddar af raforku hérlendis í fyrra. Mikið af því er bundið í langtímasamninga, meðal annars við stóriðju. Þrír fjórðu framleiðslunnar fara til stóriðju, en fjórðungur á almennan raforkumarkað.
„Hugmyndin með heildsölumarkaðnum er ekki síst að fá verðmiða á orku í landinu,“ segir Guðmundur Ingi Árnason, aðstoðarforstjóri Landsnets.
Þorsteinn Hilmarsson telur að líkleg stærð á heildsölumarkaði yrði á bilinu 100 til 200 gígavattstundir á ári.
Sé miðað við heildarframleiðslu raforku hér á landi yrði opinbert verð á heildsölumarkaðnum því byggt á einu til tveimur prósentum af framleiðslunni. - ikh