Ragnheiður Ragnarsdóttir náði sér ekki á strik í 50 metra baksundi í dag á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Debrecen í Ungverjalandi.
Hún synti á fjórðu braut í þriðja riðli af sex í undanrásunum en náði aðeins sjötta sæti í riðlinum er hún synti á 29,66 sekúndum.
Samtals lenti hún í 33. sæti en efstu sextán komust í undanúrslit.
Íslandsmetið í þessari grein á Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir sem hún setti árið 2003. Ragnheiður á best 29,25 sekúndur sem hún náði á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í fyrra. Á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug synti Ragnheiður á 29,31 sekúndu í síðasta mánuði.
Ragnheiður keppir á morgun í 50 metra skriðsundi.