Á tímum raðgreiðsla og fjöldaframleidds skrans getur verið erfitt að finna jólagjafir. Fólk á orðið allt, og vanti það eitthvað er minnsta mál að kaupa það með dyggri aðstoð krítarkortafyrirtækjanna.
Dýraverndunarsamtökin The International Rhino Foundation eru með lausn á þessu máli. Samtökin standa fyrir uppboði á fjórum stykkjum af nashyrningamykju á uppboðsvefnum eBay. Hagnaðinn af uppboðinu ætla samtökin að nýta til verndunaraðgerða.
Mykja úr fjórum af fimm tegundum nashyrninga er til sölu, hvítum-, svörtum-, indverskum- og súmötrunashyrningum. Fimmta tegundin, Jövunashyrningu, er svo sjaldgæf að ekki fannst sýni til að selja.
Dellurnar eru þurrkaðar og komið fyrir í glersýningarkassa sem er merktur þeirri tegund sem skapaði hana.
Ebay notendur virðast ekki hafa fallið í stafi yfir mununum, en þó er búið að bjóða 500 dollara í Súmötrunashyrningskúkinn. Sá hvíti vekur minnstan áhuga, en aðeins er búið að bjóða 122,5 dollara í hann.
Samtökin berjast fyrir verndun nashyrninga. Þau segja að einungis séu 17,500 villtir nashyrningar eftir í heiminum.