Þýska stórliðið Bayern Munchen komst aftur á sigurbraut í úrvalsdeildinni í dag þegar liðið lagði Wolfsburg 2-1. Liðið tapaði fyrsta leik sínum í öllum keppnum í síðustu umferð þegar það lá fyrir Stuttgart.
Franski landsliðsmaðurinn Franck Ribery hefur verið frábær í liði Bayern síðan hann gekk í raðir þess í sumar og í dag skoraði hann annað mark liðsins og lagði hitt upp fyrir félaga sinn Miroslav Klose.
Klose er nú orðinn markahæsti leikmaðurinn sem spilar í úrvalsdeildinni í dag ásamt hinum magnaða Ailton sem spilar með Duisburg í dag. Báðir hafa þeir skorað 106 mörk alls með liðum sínum í úrvalsdeildinni á ferlinum.
Það er enginn annar en Felix Magath sem er við stjórnvölinn hjá Wolfsburg, en hann stýrði liði Bayern til fjögurra titla á tveimur og hálfu ári en það nægði stjórn Bayern ekki og var hann látinn fara.
Bayern hefur eins stigs forskot á Werder Bremen á toppi úrvalsdeildarinnar, en Bremen vann 2-0 útisigur á Cottbus í dag.