Stjórn ítalska úrvalsdeildarliðsins Reggina ákvað í dag að reka knattspyrnustjórann Massimo Ficcadenti úr starfi eftir tap liðsins fyrir Livorno á heimavelli í gær, 3-1.
Emil Hallfreðsson leikur með Reggina og hefur haldið sæti sínu í byrjunarliði félagsins á leiktíðinni.
Reggina hefur hins vegar ekki tekist að vinna einn einasta leik á tímabilinu til þessa eftir tíu leiki. Liðið er í þriðja neðsta sæti deildarinnar.
Lillo Foti, forseti félagsins, kom fram í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum og lýsti yfir stuðningi við Ficcadenti. Honum virðist hafa snúist hugur. Hann ætlar einnig að láta leikmenn félagsins æfa meira á næstunni til að reyna að snúa við slöku gengi liðsins.