Stjórnvöld í Eþíópíu sögðu frá því í dag að þau séu að búa sig undir innrás frá grannþjóðinni Eritreu. Löndin tvö börðust hatrammlega um svæði á landamærum sínum á árunum 1998 til 2000. Ráðamenn í Eþíópíu segja undirbúninginn fyrirbyggjandi og til þess að geta hrundið árás ef til hennar kemur. Stjórnvöld í Eritreu neita því hins vegar að þau hafi í hyggju að ráðast inn í Eþíópíu.
Ríkin tvö hafa lengi eldað grátt silfur saman en svo virðist sem leikar hafi færst á hærra stig með yfirlýsingu forseta Eþíópíu, Meles Zenawi. Bæði löndin eru staðsett á horni Afríku en þar hefur verið mjög svo róstursamt undanfarna áratugi.