Shimon Peres verður næsti forseti Ísraels. Tveir aðrir frambjóðendur til embættisins drógu sig í hlé í dag. Það er ísraelska þingið sem velur forseta landsins. Shimon Peres er 84 ára gamall og á að baki langan feril í ísraelskum stjórnmálum. Hann hefur meðal annars verið forsætisráðherra, utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra.
Árið 1994 hlaut hann friðarverðlaun Nóbels ásamt þeim Yitzhak Rabin og Yasser Arafat, fyrir þátt sinn í Oslóar samkomulaginu. Peres hefur löngum verið öflugur talsmaður friðar og samkomulags við Palestínumenn og lagt á það höfuðáherslu þegar hann hefur gegnt ráðherraembættum.
Forseti Ísraels hefur lítil völd en hinsvegar mikil áhrif. Búast má við að Shimon Peres beiti þessum áhrifum til þess að reyna að koma á friði við Palestínumenn.