Settur saksóknari í Baugsmálinu beitti Morfís-brögðum og tók ekki tillit til hlutleysisskyldu sinnar í ræðu sinni í gær. Þetta sagði Jakob Möller verjandi Tryggva Jónssonar fyrrum aðstoðarforstjóra Baugs þegar hann hóf málflutning sinn eftir hádegi í dag.
Jakob tók undir orð Gests Jónssonar um bresti í rannsókn málsins og skort á sönnunargildi tölvupósta. Sá misskilningur hefði verið uppi að ef menn teldu póst falsaðan, ættu þeir að benda á tiltekna pósta eða tiltekna menn; "Við Gestur Jónsson erum ekki Perry Mason," sagði Jakob og vísaði þannig til bandaríska sjónvarpslögmannsins sem kom iðulega sök á aðra en skjólstæðing sinn. Það skipti máli við rannsókn á tölvupóstum að hafið væri yfir allan vafa að þeir væru ófalsaðir.
Þá sakaði Jakob Sigurð Tómas Magnússon um að tala niður til Tryggva og gera lítið úr honum. Það gerði hann með því að vísa ítrekað til þess að Tryggvi væri löggiltur endurskoðandi í tengslum við ákærulið um fjárdrátt.
Jakob sagði að saksóknari hefði náð sér í athygli fjölmiðla með því að fullyrða að Tryggvi hefði gert 20 breytingar á framburði sínum frá því hann var yfirheyrður hjá lögreglu og þar hann kom fyrir dóm, en saksóknari hefði ekki fært nein rök fyrir þessari fullyrðingu.
Hann benti á að Tryggvi hefði verið handtekinn sama dag og húsleit var gerð hjá Baugi í ágústlok árið 2002 og verið í haldi í sólarhring. Hann hefði ekki vitað hvaðan á sig stóð veðrið. Undir rekstri málsins hefðu komið fram skjöl sem hefðu gefið tilefni til breytinga á framburði.
Þá sagði hann saksóknara hafa látið í það skína að hinn breiði fjöldi hluthafa í Baugi hefði tapað á bókhaldsbrellum ákærðu. Baugur hefði verið á markaði á árunum 1999-2003 og á þeim tíma hefði aldrei nokkur maður kvartað til félagsins vegna tjóns sem hann teldi sig hafa orðið fyrir. Hins vegar hefði gengi félagsins hækkað um rúmlega 50 prósent á tímabilinu.
Reiknað er með að Jakob flytji mál sitt fram til klukkan fjögur en málflutningur verjenda haldi áfram í fyrramálið.