Pizarro hótar að hætta hjá Bayern

Perúmaðurinn Claudio Pizarro hjá Bayern Munchen segist ætla að fara frá félaginu ef honum verði ekki boðinn nýr og betri samningur fljótlega. Samningur hans rennur út í sumar og sagt er að hann vilji fá allt að 50.000 pund í vikulaun.
Vitað er af áhuga Juventus á leikmanninum, en ítalska félagið hefur þegar tryggt sér þjónustu félaga hans Hasan Salihamidzic í sumar.
"Þetta er síðasti samningurinn minn á ferlinum og því spila peningar eðlilega stóra rullu í samningaviðræðunum," sagði hinn 28 ára gamli markaskorari í samtali við Kicker.
Pizarro hefur ekki átt fast sæti í liði Bayern og var m.a. handtekinn fyrir ölvunarakstur í fyrra. Hann hefur skorað 10 mörk fyrir Þýskalandsmeistarana í vetur þrátt fyrir að vera fyrir aftan þá Roy Makaay og Lukas Podolski í goggunarröðinni.