Leigubílstjóri kærir Ásgeir Davíðsson, betur þekktan sem Geira Goldfinger, fyrir morðhótun og líkamsárás í dag. Hann segir að Ásgeir hafi ráðist á sig á fjórða tímanum í nótt þegar hann keyrði hann frá skemmtistaðnum Vegas í einkasamkvæmi í austhluta borgarinnar. Lögreglan var kölluð til og staðfestir að atvikið hafi átt sér stað á Kleppsvegi.
Í samtali við fréttastofu sagði leigubílsstjórinn að Ásgeir hafi misst stjórn á skapi sínu áður en komið var á áfangastað. Hann hafi hótað skemmdum á bílnum og öðrum eigum og því að valda eins miklu tjóni og mögulegt væri. Hann segir að hann hafi ráðist á sig og kýlt sig ítrekað í andlitið.
Leigubílstjórinn hefur í tvígang kært Ásgeir vegna hótana. Hann óttast nú um líf sitt, þar sem hann telur Ásgeir hafa hóp handrukkara á sínum snærum.
Hann fór á slysadeild í skoðun og kærir Ásgeir fyrir líkamsárás og hótanir í dag.