Þorgils Þorgilsson framkvæmdastjóri veitingastaðarins Carpe Diem er afar ósáttur við fréttaflutning af verðlagi á veitingum staðarins í Sjónvarpinu í gærkvöldi.
Hann segir upplýsingar um verðlag á staðnum í fréttatíma RUV og í Kastljósi hafa verið rangar og ábyrgðarlausar. Þorgils segir að á einu ári hafi einungis tveir réttir hækkað í verði á staðnum.
Í umfjöllun RUV var sagt frá veitingastöðum sem ekki höfðu lækkað verð á matseðlum um mánaðamót þegar lækkun virðisaukaskatts á matvælum tók gildi. Einhverjir staðir höfðu jafnvel hækkað verð.
Carpe Diem á Rauðarárstíg var nefndur í þessu samhengi. Þorgils segir að verðlækkun á matseðli staðarins hafi verið að meðaltali um níu prósent um síðustu mánaðarmót. Hins vegar voru tveir réttir hækkaðir á matseðli Carpe Diem um áramótin, en ekki um mánaðarmót. Aðrir réttir hækkuðu ekki.
Fréttamönnum Kastljóss var gerð grein fyrir því fyrir útsendinguna í gær.
Þorgils segir hækkunina á þessum tveimur réttum um áramót vera einu hækkun staðarins í heilt ár, á sama tíma og hráefni og launakostnaður hefur hækkað til muna.