Niels H. Morthensen, framkvæmdastjóri fyrirtækisins SMS í Færeyjum, var fyrsta vitni í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann dró til baka yfirlýsingu sem hann gaf áður í lögregluskýrslu um að hann og Tryggvi Jónsson hefðu haft samráð um hvernig útskýra ætti ríflega 46 milljóna króna kredityfirlýsingu sem SMS gaf út fyrir Baug og færð var í bókhald Baugs.
Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni er gefið að sök að hafa látið færa yfirlýsinguna í bókhald Baugs en í henni er talað um markaðsstyrk til Bónuss frá fyrirtækinu Dagrofa. Níels sagði í morgun að engin viðskipti hafi legið að baki yfirlýsingunni og hún hefði ekki verið færð í bókhald SMS.
Færeyska fyrirtækið SMS gaf út yfirlýsinguna og sagði Niels að Tryggvi Jónsson, sem hafði beðið um yfirlýsinguna, hefði sagt að nota ætti hana innanhúss hjá Baugi.
Niels var einnig spurður út í fund sem hann átti með Tryggva Jónssyni í Danmörku í september 2002, áður en færeyska og íslenska lögreglan gerðu húsleit hjá SMS. Hann neitaði að á honum hafi verið rætt hvernig SMS-menn ættu að útskýra yfirlýsinguna.
Næstur í vitnastúku er faðir Níelsar, Hans Morthensen, einnig hjá SMS. Segja má að í dag sé færeyskur dagur í Baugsmálinu því vitni dagsins eru öll frá Færeyjum.