Francesco Totti, fyrirliði Roma á Ítalíu, mun halda áfram að taka vítaspyrnur liðsins þrátt fyrir að hafa klúðrað sinni sjöttu vítaspyrnu á leiktíðinni gegn Reggina um helgina. Á sama tíma hefur Totti aðeins skorað úr fjórum vítaspyrnum. Eins ótrúlegt og það hljómar þá ætlar þjálfari liðsins ekki að breyta um vítaskyttu.
"Hann mun halda áfram að taka vítaspyrnur," sagði Luciano Spalletti, þjálfari Roma, eftir leikinn en Totti og félagar unnu sannfærandi 3-0 sigur.
Totti sjálfur hefur engar skýringar á arfaslakri nýtingu sinni. "Ég tek spyrnurnar með sama sjálfsöryggi og venjulega og ég mun líka gera það næst þegar ég tek víti. Ég hef bara verið óheppinn á þessari leiktíð og held ég hafi bætt upp fyrir klúðrin með því að skora meira úr venjulegum skotum" sagði Totti.