Körfubolti

ÍR-ingar bikarmeistarar

ÍR-ingar eru bikarmeistarar karla í körfubolta árið 2007 eftir 83-81 sigur á Hamri/Selfoss í Laugardalshöllinni. ÍR hafði undirtökin lengst af í leiknum en Hamarsmenn voru aldrei langt undan og voru lokasekúndurnar æsispennandi líkt og í kvennaleiknum fyrr í dag.

ÍR-ingar eru vel að titlinum komnir og gaman fyrir liðið að fá titilinn í hús á 100 ára afmæli félagsins. Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR hafði sigur gegn bróður sínum Pétri sem stýrir liði Hamars og var þetta í fyrsta skipti sem bræður berjast sem þjálfarar í úrslitaleik bikarkeppninnar.

George Byrd var yfirburðamaður í liði Hamars hvað tölfræði snertir en hann skoraði 24 stig, hirti 15 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Nate Brown var stigahæstur hjá ÍR með 17 stig, Keith Vassell skoraði 14 og Eiríkur Önundarson skoraði 13 stig en þurfti að fara af velli með fimmtu villuna undir lokin.

ÍR nýtti 65% tveggja stiga skota sinna í leiknum en Hamar aðeins 47%, en Hamar var með betri 3ja stiga nýtingu - 47% gegn 37% ÍR. Hamarsmenn hirtu 38 fráköst í leiknum en ÍR-ingar aðeins 26. Þá má segja að vítanýtingin hafi komið liði Hamars í koll í leiknum því þar nýtti liðið aðeins rétt rúmlega helming víta sinna (13 af 25), sem er dýrt í bikarúrslitaleik. ÍR nýtti um 70% sinna 13 víta í leiknum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×