Tengibrautin við Helgafellshverfi í Mosfellsbæ verður lækkuð um tvo metra næst Álafosskvosinni og færð fjær Varmá. Mosfellsbær hefur lagt sérstaka áherslu á að takmarka hljóðmengun frá veginum. Í fréttatilkynningu frá bænum segir að strangari reglum verði fylgt en lög kveði á um. Á kynningarfundi sem haldinn var í Hlégarði í gær kynnti tækni- og umhverfissvið bæjarins hönnun og útfærslu Helgafellsvegar.
Miklar umræður og deilur hafa verið um Helgafellsveginn. Varmársamtökin krefjast þess að hætt verði við byggingu vegarins vegna náttúruverndarsjónarmiða við Varmá og Álafosskvos.
Í tilkynningunni frá bænum kemur fram að úrskurður Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra segi að ekki sé brotið gegn ákvæðum náttúruverndarlaga, né náttúruminjaskrár sem gildir um Varmá. Bærinn hafi lagt áherslu á samvinnu við íbúa bæjarins. Skipulagsmál hafi veirð unnin samkvæmt lögboðnu ferli og fá eða engin verkefni hafi fengið jafn mikla kynningu í bænum.
Þá er það mat bæjaryfirvalda að Helgafellsvegur; "falli vel að landi og umhverfi og hafi lítil áhrif á íbúa og nærumhverfi."