Bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir að heimild til að veita framkvæmdaleyfi fyrir tengibraut um Álafosskvísl hafi verið skýr og í fullu samræmi við lög og reglur. Gengið hafi verið úr skugga um það á fundi bæjarins með fulltrúum Umhverfisstofnunar 5. febrúar. Ekki hafi þurft að leita umsagnar Umhverfisstofnunar í þriðja sinn.
Í yfirlýsingu frá Ragnheiði Ríkharðsdóttur bæjarstjóra segir að Umhverfisstofnun hafi tvisvar gefið umsögn um vegaframkvæmdina í Álafosskvísl. Í fyrra skiptið vegna umfjöllunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar og í síðasta skiptið í tengslum við kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðuneytisins.
Í yfirlýsingunni kemur fram að í ítarlegum úrskurði umhverfisráðherra frá 7.desember 2006 hafi niðurstaða Skipulagsstofnunar verð staðfest um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, þar sem hún væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Auk þess brjóti framkvæmdin ekki gegn ákvæðum um náttúruminjaskrá sem gildir um Varmá.
Bæjarstjóri segir ljóst að ekki sé hætta á að tengibrautin spilli Varmá og sé ekki háð 38. gr. náttúruverndarlaga.
Þá segir í yfirlýsingunni að því sé fagnað að misskilningur sá sem frétt Ríkisútvarpsins byggði upphaflega á, hafi nú verið leiðréttur.