Ólíklegt er að fjöldi fólks frá Íslandi, sem var á leið heim frá Nordisk Panorama í Oulo í Finnlandi, sæki fast að fjárfesta í Finnair fljótlega, þar sem FL Group er næststærsti eigandinn á eftir finnska ríkinu. Þegar ferðalangarnir höfðu komið sér þægilega fyrir í sætum Finnair-vélarinnar á leið til Helsinki var ekki hægt að taka á loft. Hurð vélarinnar stóð á sér og lokaðist ekki almennilega. Eftir nokkra seinkun var haldið af stað og klakklaust lent á leiðarenda. Frá Helsinki átti svo að fljúga aftur með Finnair til Kaupmannahafnar. En vélin fór ekki á loft. Nú voru ljós vélarinnar í lamasessi. Þurftu þreyttir farþegar að bíða aftur eftir viðgerð. Ekki fylgdi sögunni hvernig gekk að fljúga síðasta legginn - líklega með Icelandair.
Mótvægisaðgerðir tefja framfarir„Mörgum fannst það einkennilegt afturhvarf til fortíðar þegar ríkisstjórnin boðaði „aðgerðir“ í atvinnumálum víða um land,“ segir í Öðrum sálmum nýjasta heftis Vísbendingar. Vísað er til aðgerða vegna niðurskurðar fiskveiðiheimilda og rifjað upp „sjóðasukk“ fyrri ríkisstjórna. Boðaðar aðgerðir eru engu að síður sagðar skynsamlegar einar og sér, þótt þær hafi líklega lítil áhrif á einstaklinga sem missa vinnu í sjávarútvegi. Fremur en að leita til ríkisstjórnarinnar er í Öðrum sálmum hvatt til sjálfsbjargarviðleitni. „Nú er lag að sameina útgerðarfyrirtæki og fækka fiskvinnsluhúsum. Allar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar verða til þess að tefja nauðsynlegar framfarir í greininni.“