Skipt var um stjórnarformann í Seed Forum á Íslandi auk þess sem þrír nýir stjórnarmenn komu inn á aðalfundi félagsins á fimmtudag í síðustu viku. Seed Forum velur og þjálfar íslensk nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki til að kynna sig fyrir fjárfestum hér heima og erlendis.
Dr. Andri Ottesen, framkvæmdastjóri Klaks nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs, tók við stjórnarformennsku af Jóni Helga Egilssyni, sem tók við stöðu framkvæmdastjóra hjá Seed Forum International í Bandaríkjunum í vor. Hinir eru Eggert Claessen, formaður Samtaka viðskiptaengla, Jón Hreinsson, rekstrarstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og dr. Rögnvaldur Sæmundsson, dósent við Háskólann í Reykjavík í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum.
Aðrir stjórnarmenn eru dr. Bjarki Brynjarsson hjá Askar Capital, Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður nýsköpunarsviðs Samtaka iðnaðarins, og Jón Helgi. Þá er Elsa Einarsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþjónustu breska sendiráðsins, áheyrnarfulltrúi.