Egill Helgason, þáttastjórnandi, ríkisstarfsmaður og Eyjubloggari með meiru, bendir lesendum síðu sinnar á hluti sem einungis er á færi auðkýfinga að eignast; eða ógeðslega ríkra manna sem alls ekki vilja eyða peningum í góðgerðarstarf, líkt og Egill kemst að orði. Mælir bloggarinn sérstaklega með dýrustu pitsu í veröldinni sem verðlögð er á rúmar sextíu þúsund krónur. Flatbakan er með fjórum mismunandi tegundum af kavíar, humri, eðallaxi og örlitlu japönsku wasabi. Fyrir áhugasama þá er pitsan fáanleg á veitingahúsinu Nino"s Bellissima Pizza, í New York-borg. Ekki fylgir sögunni hvort Egill hafi sjálfur bragðað á bökunni.
Öll spjót á NorðmönnumNorski olíusjóðurinn sætir um þessar mundir töluverðri gagnrýni heimafyrir vegna fjárfestinga í námafyrirtækinu Barrick Gold. Norðmenn hafa nefnilega lagt nokkuð upp úr „siðlegum“ fjárfestingum, það er að eiga ekki viðskipti við fyrirtæki sem stunda umhverfissóðaskap eða eru á annan hátt brotleg.
Norska ríkissjónvarpið gerði því nokkuð úr því þegar í ljós kom að Olíusjóðurinn hafði lagt sem svarar tæpum 9,4 milljörðum íslenskra króna, eða 860 milljónum norskra, í Barrick Gold, en félagið er sagt bera ábyrgð á meiriháttar umhverfisspjöllum á Filippseyjum. Við bætist svo vandræðagangur Norsk Hydro vegna „óhóflegra“ kaupréttarsamninga við stjórnendur. Spurning hvort tekið sé að falla á geislabauginn.