Íslenskum fyrirtækjum býðst nú að sækja þekkingu í fræðasamfélag MIT-háskólans í gegnum samstarfssamning sem Háskólinn í Reykjavík hefur umsjón með í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð.
Samstarfinu verður hleypt formlega af stokkunum með ráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík eftir helgi. Með samstarfinu er sagt að opnist aðgangur fyrir íslensk fyrirtæki að víðtæku samstarfi, auk þess sem aðgengilegar verði upplýsingar um nýjungar, rannsóknir og verkefni sem verið sé að vinna að. „Fulltrúar fyrirtækja sem ganga inn í samstarfið við HR fá einnig aðgang að sérfræðingum og geta sótt ráðstefnur, málþing og aðra viðburði sem skipulagðir eru innan ramma samstarfsins,“ segir í tilkynningu HR.
Samstarfið fer fram á vettvangi svokallaðs ILP samstarfs innan MIT en Stjórnendaskóli HR er tengiliður samstarfsins hér.