Nýverið lauk námskeiðinu Sóknarbraut sem Impra nýsköpunarmiðstöð gekkst fyrir á Skagaströnd og Blönduósi. Sóknarbraut er hagnýtt námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki. Alls tóku ellefu frumkvöðlar frá Norðurlandi vestra þátt í námskeiðinu.
Í fréttatilkynningu frá Impru segir að viðskiptahugmyndir þátttakendanna hafi verið af fjölbreyttum toga. Meðal þeirra eru verkefni á sviði matvælaframleiðslu, smíði og iðnframleiðslu auk margs konar þjónustu.
Þátttakendur reka sumir hverjir nú þegar fyrirtæki. Aðrir skoðuðu ný tækifæri til atvinnusköpunar í sinni heimabyggð. Fram komu margar áhugaverðar viðskiptahugmyndir. Sérstaka viðurkenningu hlaut Oddný María Gunnarsdóttir fyrir áhugaverða og efnilega hugmynd sem tengist matvælavinnslu.