Tónlist

Lady Sovereign - þrjár stjörnur

Frumsmíð dvergvöxnu ensku rappstelpunnar sem Jay-Z féll fyrir er fersk og skemmtileg þó að lögin séu misjöfn að gæðum.
Frumsmíð dvergvöxnu ensku rappstelpunnar sem Jay-Z féll fyrir er fersk og skemmtileg þó að lögin séu misjöfn að gæðum.

Lady Sovereign heitir réttu nafni Louise Harman og ólst upp í alræmdu fátækrahverfi í Norður-London. Hún vakti fyrst athygli þegar hún setti efni með sér inn á aðdáendasíðu bresku rappsveitarinnar So Solid Crew. Hún var þá 14 ára. Hún átti lag á Grime-safnplötunni Run The Road sem kom út árið 2005, en Grime-tónlistin er sambland af garage-danstónlist og rappi og hefur verið áberandi í London síðustu ár.

Lady Sovereign hitti Jay-Z í samkvæmi árið 2005. Hann bað hana að spinna upp rímur á staðnum sem hún gerði með stæl og í framhaldinu bauð hann henni samning við Def Jam-útgáfuna. Public Warning er hennar fyrsta plata í fullri lengd. Hún er sambland af gömlu smáskífulögunum hennar og nýju efni. Hún kom út í Bandaríkjunum í fyrra, en er nýkomin út í Evrópu.

Lady Sovereign er bæði töffari og húmoristi. Hún hefur gott flæði og mjög áberandi enskan framburð og textarnir hennar eru fullir af skemmtilegum hversdagsævintýrum. Hún hefur húmor fyrir sjálfri sér og talar mikið um það hvað hún sé smávaxin. Í laginu Love Me Or Hate Me segist hún vera „Officially the biggest midget in the game“ og fyrsta EP-platan hennar hét „Vertically Challenged“. Það er margt flott í tónlistinni, taktarnir eru bæði ferskir, einfaldir og fönkí. Það eru nokkur frábær lög hér, – þar á meðal 9 to 5, Random, Public Warning, Love Me or Hate Me og Hoodie. Lögin eru samt misjöfn að gæðum og það dregur heildina niður.

Trausti Júlíusson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×