Viðskipti innlent

Seed Forum vekur athygli vestanhafs

Frá fjárfestaþingi Björn Haugland frá Symphonical, kynnir á fjárfestaþingi Seed Forum í New York í Bandaríkjunum síðastliðið haust.
Frá fjárfestaþingi Björn Haugland frá Symphonical, kynnir á fjárfestaþingi Seed Forum í New York í Bandaríkjunum síðastliðið haust. MYND/K. Lee Sohn
Kynning Seed Forum á norrænum sprotafyrirtækjum fyrir fjárfesta í Bandaríkjunum hefur vakið mikla athygli þar í landi. Jón Helgi Egilsson, framkvæmdastjóri Seed Forum í Bandaríkjunum, segir kynningu félagsins á sprotafyrirtækjum með öðru sniði en gengur og gerist. Kynningin er hnitmiðaðri og skilar oft góðum árangri jafnt fyrir forsvarsmenn sprotafyrirtækjanna sem fjárfesta. Fimmta fjárfestaþing Seed Forum verður haldið í Reykjavík undir lok næsta mánaðar. vettvangur fyrir sprotafyrirtæki
Jón Helgi Egilsson Jón Helgi segir mjög mikilvægt fyrir sprotafyrirtæki að fá fjárfesta með reynslu og þekkingu af rekstri fyrirtækja inn í félagið. Markaðurinn/Stefán

Seed Forum er upprunnið í Noregi árið 2002 þar sem leitast var við að finna vettvang til að kynna norsk sprotafyrirtæki í Bretlandi. En fljótlega bættust fleiri fyrirtæki frá Skandinavíu í hópinn. Íslendingar sáu fljótlega hag sinn í samstarfi við norska félagið og var Seed Forum Iceland stofnað sérstaklega vegna þessa.

Jón Helgi kom svo til starfa hjá samtökunum árið 2004 og tók til við að kynna norræn sprotafyrirtæki fyrir erlendum fjárfestum. „Þegar ég kom að þessu voru haldin fjárfestaþing á þremur stöðum í heiminum,“ segir Jón og bendir á að á þessum tíma hafi verið frekar erfitt að fjármagna sprotafyrirtæki enda netbólan þá tiltölulega nýsprungin. Í dag eru fjárfestaþingin mun fleiri en því til sönnunar verða þau á 18 stöðum í vor en 21 í haust auk þess sem sprotafyrirtæki í Bandaríkjunum, Bretlandi og í Austur-Evrópu hafa lýst yfir áhuga á því að bætast í hópinn.

Jón segir fjármögnun sprotafyrirtækja ekki auðsótt mál. Þau séu of lítil til þess að bankar og fjármálafyrirtæki sjái hag í því að leggja til þeirra fjármagn. „Stórfyrirtæki á borð við banka hafa mjög mikið af peningum til umráða og þurfa að koma þeim einhvers staðar í vinnu. Það væri alltof mikil vinna að finna þúsund lítil fyrirtæki fyrir þau til að fjárfesta í. Það er mun einfaldara fyrir þau að fjárfesta í tveimur stórum fyrirtækjum í stað margra smárra,“ segir Jón og bendir á að Seed Forum sé einmitt vettvangurinn til að leiða saman sprotafyrirtæki og fjárfesta sem áhuga hafi á smærri einingum.

Leið samtakanna er að leita til svokallaðra viðskiptaengla (e. business angels), þ.e. efnameiri einstaklinga sem hafa gjarnan stofnað eigin fyrirtæki og hafa auk þess fjárhagslegt bolmagn, reynslu og áhuga til þess að vinna með sprotafyrirtækjum sem eru skammt á veg komin. „Það er svo mikilvægt að fá fjárfesta sem þessa, jafnvel þótt þeir leggi ekki nema nokkrar milljónir bandaríkjadala inn í sprotafyrirtækin,“ segir Jón og leggur áherslu á að reynsla fjárfestanna við uppbyggingu fyrirtækja skipti þau jafn miklu máli og fjármagnið sem þeir leggi inn til þeirra. „Að fá fjárfesta sem hafa reynslu af rekstri er mjög verðmætt fyrir fyrirtæki því þá fæst bæði fjármagn, reynsla og þekking inn í félagið,“ segir hann og bætir við að um helmingurinn af fjármagni sprotafyrirtækja í Bandaríkjunum komi frá sjóðum en hinn helmingurinn frá viðskiptaenglum, sem sjái hag sinn í því að fylgja fyrirtækinu úr hlaði enda hafi þeir hag af því að þeim vegni vel.

Fá sprotafyrirtæki kynnt til sögunnar

Jón segir helsta muninn á þeim fjárfestaþingum sem fyrir voru áður en Seed Forum kom til sögunnar vera þá að fulltrúar sprotafyrirtækja kynntu þau fyrir fjárfestum á hverjum stað fyrir sig. Hjá Seed Forum horfi öðruvísi við en þar eru tiltölulega fá sprotafyrirtæki kynnt fyrir fjárfestum um allan heim.

„Seed Forum er meira,“ segir Jón og bendir á að leiðin að endanlegu markmiði sé í fjórum þrepum. Fyrsta þrepið felst í því að fjárfestingasjóðir tilnefna þau sprotafyrirtæki sem þau hafi trú á til þátttöku á fjárfestaþingi Seed Forum sem ekki hafi hlotið náð fyrir augum sjóðsins. Skref tvö felst síðan í því að þau sprotafyrirtæki sem hafa verið tilnefnd til mögulegrar þátttöku á fjárfestaþingi senda inn upplýsingar um starfsemi sína, sérstöðu og fleiri þætti. Upplýsingarnar eru settar í hendur á alþjóðlegri dómnefnd, sem skipuð er fjárfestum frá öllum þeim stöðum þar sem fyrirhugað er að halda fjárfestaþing.

Þau sprotafyrirtæki sem skora hæst eru síðan valin til þátttöku á fjárfestaþingum. Þegar búið er að velja fyrirtækin og kanna hvort forsvarsmenn þeirra hafi áhuga á að fara á tiltekin fjárfestaþing, svo sem í Sjanghæ kemur ströng tveggja daga þjálfun forsvarsmanna allra fyrirtækjanna sem eiga að kynna sprotafyrirtækin fyrir viðskiptaenglunum undir leiðsögn þjálfara.

Allt þetta leiðir að einu markmiði: Sjálfu fjárfestaþinginu þar sem fulltrúar fárra útvaldra fyrirtækja komast að. „Mikil áhersla er lögð á gæði á fjárfestaþingunum enda fá fyrirtækin bara átta mínútur til að kynna sig fyrir viðskiptaenglunum,“ segir Jón Helgi og bendir á að nauðsynlegt sé að hafa kynningarnar hnitmiðaðar. „Það er svo mikið framboð af sprotafyrirtækjum í heiminum að menn þurfa að tryggja að fjárfestar sem hafa hug á að setja fjármagn sitt í fyrirtækin nenni einfaldlega að eyða tíma sínum í að hlusta á kynningu á sprotafyrirtækjunum,“ segir hann.

Vegna þess hversu hnitmiðaðar kynningar sprotafyrirtækjanna eru vara fjárfestaþingin einungis í um tvær klukkustundir. Þessi tími er nægur og hefur skilað sér í ánægðum viðskiptaenglum, sem koma aftur og aftur á þingin, að sögn Jóns.

Fjárfestaþing Seed Forum hafa vakið mikla athygli vestanhafs og fagtímarit í Bandaríkjunum hrósað þeim í hástert. Jón Helgi segir það mjög jákvætt enda sé bandaríski fjárfestamarkaðurinn með þeim þróaðri í heimi og taki fjárfestar eftir því sem vel er gert.

Næsta fjárfestaþing í mars

Um þessar mundir stendur yfir fyrsta þrep þar sem fjárfestingasjóðir og háskólar tilnefna sprotafyrirtæki til þátttöku á næstu fjárfestaþingum. Hinn 29. mars næstkomandi verður síðan blásið til fyrsta fjárfestaþings Seed Forum á árinu, sem að þessu sinni er haldið í Reykjavík.

Fjárfestaþingið í Reykjavík í mars er ekki frábrugðið öðrum þingum Seed Forum. Aldrei fleiri en tíu sprotafyrirtæki kynna þar starfsemi sína, í mesta lagi sex frá Íslandi en afgangurinn erlendur.

Að loknu fjárfestaþinginu hér verða hin sautján næstu þingin haldin hvert á fætur öðru. Hvert og eitt fyrirtæki fer hins vegar ekki á alla þá staði þar sem fjárfestaþing verða haldin heldur einungis á þeim stöðum þar sem fyrirtækið hefur hug á að vaxa, sem geta verið allt frá einum til þremur stöðum í heiminum, að sögn Jóns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×