Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir búðarhnupl í sumar og haust. Manninum var gefið að sök að hafa stolið þremur lambalærum í einni verslun, einu læri í annarri verslun og lambakótilettum í þriðju versluninni.
Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa stolið frosnum ýsuflökum, fjórum lambalærum og þremur kössum af fæðubótaefnum í tveimur öðrum búðum.
Maðurinn, sem er síbrotamaður, játaði brot sín skýlaust en sakaferill hans nær aftur til ársins 1988. Höfðu fyrri auðgunarbrot hans ítrekunaráhrif og í ljósi þess að hann rauf skilorð þótti dómnum ekki fært að skilorðsbinda dóminn.