Lítil meiðsl urðu á ökumanni og farþega fólksbíls sem valt einn hring í mjúkum snjó á Háreksstaðaleið, norðan við Jökuldal í gærkvöldi. Lögregla dró bílinn upp á veginn og var hann keyrður á leiðarenda áfallalaust eftir það.
Einnig fór betur en á horfðist þegar amerískur pallbíll valt heilan hring á Suðurlandsvegi skammt vestan við Hellu í gærkvöld. Ökumaðurinn missti stjórn á bílnum í hálku og er bíllinn mikið skemmdur. Fólkið var flutt á heilsugæslustöðina á Hellu en reyndist lítið slasað.