Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segist afar sáttur við að sjá fimm bresk lið í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í ár eftir sigur United á Benfica í kvöld. "Það er frábært að sjá þessi lið komast áfram og það er ljóst að eitt þeirra á góða möguleika á að vinna keppnina. Ég vona bara að það verði okkar lið," sagði Ferguson.
United náði efsta sæti riðils síns með sigrinum í kvöld og forðast því að lenda gegn liðum á borð við Lyon, Milan eða Bayern í næstu umferð. Liðsins gæti þó beðið leikur gegn Barcelona, Real Madrid eða Inter í 16-liða úrslitunum.
"Það er vissulega gott að fá heimavöllinn í síðari leiknum í næstu umferð, en þegar lið eins og Inter, Barcelona og Real Madrid bíða þar, er auðvitað ekkert gefið í þessu," sagði Skotinn.