Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var í dag endurkjörin formaður Kristilegra demókrata á landsfundi þeirra í Dresden. Merkel hlaut 93 prósent atkvæða sem staðfesti stuðning flokkssystkina hennar við hana í embætti. Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um landsmenn alla því stuðningur við Merkel í kanslaraembættið hefur minnkað mikið og nýtur hún nú stuðings innan við helmings þjóðarinnar þrátt fyrir að hún hafi aðeins verið um ár í embætti.
Við þetta bætast svo deilur meðal kristilegra demókrata um stefnu flokksins, en Merkel hvatti til þess í ræðu sinni á landsfundinum að flokksmenn leggðu niður deilur svo flokkurinn nyti áfram trausts meðal þýsku þjóðarinnar.