Sjálfboðaliðar fyrir Ólympíuleikana sem verða í Peking í Kína árið 2008 hafa verið sendir í sérstaka þjálfun til þess að standa sig betur í starfi sínu. Og hvað er verið að kenna sjálfboðaliðunum? Jú, að brosa.
Slagorð Ólympíuleikanna í borginni á víst að snúast um borgina brosandi, Peking, og því hafa skipuleggjendur lagt mikið upp úr því að sjálfboðaliðar brosi til fólks á götum úti. Þetta getur virst okkur vesturlandabúum furðulegt en í Kína er fólk sem brosir mikið almennt álitið skrýtið eða hafa eitthvað annað í huga en það segist. Kínverjum er því kennt að vera alvarlegir þegar þeir tala.
Sumir sjálfboðaliðar hafa meira að segja fengið þjálfun í að sýna hið svokallaða "þriggja metra bros" en það er þegar fólk brosir til einhvers úr þriggja metra fjarlægð. Sögðu þeir einstaklega erfitt að ná valdi á þeirri tækni.
Síðar sögðust þeir hafa áttað sig á því að ef þeir litu ekki á það sem vinnu, heldur eðilegan hlut í mannlegum samskiptum, að þurfa að brosa, væri miklu auðveldara og jafnvel bara gaman að ganga um síbrosandi.
Fréttavefurinn Chinadaily skýrði frá þessu í dag.