Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar var í dag formlega stofnuð við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Með henni á að leitast við að efla og skapa sóknarfæri til handa rétthöfum tónlistar og auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás og í að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum á þessu sviði, eins og segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Útflutningsskrifstofan verður þjónustu- og upplýsingamiðstöð fyrir tónlistargeirann og á sér fyrirmyndir annars staðar á Norðurlöndum. Að skrifstofunni standa Samtónn, sem eru samtök tónlistarrétthafa, og Landsbanki Íslands, en auk fjárframlaga frá þeim leggja utanríkisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti til fjárframlög til reksturs Útflutningsskrifstofunnar. Framlög ráðuneytanna nema tíu milljónum á ári sem er ríflega helmingur af því sem það kostar að reka skrifstofuna