Björgunarsveit var kölluð út í Ólafsvík á ellefta tímanum til að hemja járnplötur, sem voru farnar að fjúka af gistiheimilinu þar. Víða um land er hvassviðri, stórhríð og ófærð.
Öllu hvassara hefur verið á sunnanverðu nesinu í morgun og það er óveður á Holtavörðuheiði og í Svínadal. Annars er hálka, snjóþekja og skafrenningur á vegum á Vesturlandi.
Á Vestfjörðum er beðið með mokstur um Ísafjarðardjúp vegna óveðurs þar, stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og Gemlufallsheiði, og ófært er á Klettshálsi og Eyrarfjalli. Óveður er í Hrútafirði, stórhríð á Þverárfjalli og á milli Hofsóss og Sigurfjarðar. Sömuleiðis er stórhríð á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, einnig á Víkurskarði og Ljósavatnsskarði og sunnan Húsavíkur.
Þá er hálka og skafrenningur á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Á Austurlandi er ástandið skárra fyrir utan hálku og að Öxi er ófær, en þokkalegt veður er á suðaustur og Austurlandi og allir vegir greiðfærir.
Nokkrir stórir togarar liggja í vari inni á fjörðum fyrir vestan vegna óveðurs á miðunum. Sárafá skip eru nú á sjó vegna óveðurs víða við landið en ekki er vitað til þess að neitt skip hafi orðið fyrir brotsjó, eða að önnur óhöpp hafi orðið um borð.