Björgunarsveitir í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði eru í viðbragðsstöðu vegna veðursins sem á að ganga yfir suðvesturhluta landsins í nótt og í fyrramálið. Bílar frá þeim keyra sem stendur um hverfi og aðstoða fólk við að tryggja lausahluti. Eitthvað er um að þau hafi líka fest niður hluti á byggingarsvæðum, svo sem stillasa.
Í Keflavík er björgunarsveitin einnig í viðbragðsstöðu en mikil rigning þar í kvöld hefur orðið til þess að niðurföll hafa varla undan. Lítið ber þó á fjúkandi furðuhlutum enn sem komið er.
Á Akranesi varð eignatjón er bíl var ekið yfir stillasa sem þar hafði fokið á veg. Þar eru björgunarsveitir einnig að keyra um bæinn og festa niður það sem laust er.
Veðurstofa Íslands býst við stormi víða um land og jafnvel ofsaveðri suðvestanlands í fyrramálið. Samkvæmt spánni verður suðaustan átt 18-23 m/s með mikilli rigningu sunnan- og vestanlands. Annars heldur hægara og dálítil rigning eða slydda. Vindurinn snýst síðan í suðvestlæga átt í fyrramálið, 20-28 m/s og verður hvassast suðvestan til. Þegar líður á daginn verður hvöss norðan- og norðvestanátt með snjókomu eða éljum seinni partinn og um kvöldið. Hiti verður víða 2 til 7 stig, en kólnar eftir því sem líður á daginn.