Rangárþing eystra og Landgræðsla ríkisins hafa gert með sér samkomulag um söfnun 10 þúsund heyrúllna og bagga á næstu fjórum árum til að nota við heftingu sandfoks með það að markmiði að tryggja örugga umferð til og frá fyrirhugaðri höfn í Bakkafjöru á Landeyjasandi.
Átakið verður auglýst undir heitinu "Græðum Landeyjasand" þar sem óskað verður eftir því að bændur í Rangárþingi eystra leggi til þær heyrúllur og bagga sem þeir koma ekki til með að nota í sínum búskap. Þá mun Rangárþing eystra stefna að því að þær rúllur sem til falla í fyrirhuguðu umhverfisátaki sveitarfélagsins 2007 nýtist til uppgræðslu á Landeyjasandi. Í tilkynningu frá frá Rangárþingi eystra og Landgræslunni að mikilvægt sé að íbúar sveitarfélagsins taki þátt í verkefninu enda munu fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir hafa gríðarleg áhrif á atvinnulíf til lengri tíma litið á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.