Menntamálaráðuneytið hyggst hleypa af stokkunum tilraunaverkefni á sunnaverðum Vestfjörðum þar sem gert er ráð fyrir framhaldsskóladeild á Patreksfirði.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra kynnti þessar hugmyndir á ríkisstjórnarfundi í morgun en þær gera ráð fyrir að ungmenni í Vesturbyggð og á Tálknafirði geti stundað nám á fyrstu tveimur árum framhaldsskóla í sinni heimabyggð með bæði fjarkennslu og kennslu í heimabyggðinni.
Að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra verður umsjón og ábyrgð námsins í höndum Fjölbrautaskóla Snæfellinga og geta nemendur þá lokið stúdentsprófi þar. Markmiðið með þessu að sögn Þorgerðar er að fjölga menntuðu fólki í minni byggðum og er stefnt að því, ef vel gengur, að eldra fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskólanámi geti einnig nýtt sér leiðina. Tilraunaverkefnið hefst næsta haust.