Riðlakeppnin í Evrópukeppni félagsliða hefst með látum í dag og er leikur Wisla Krakow og Blackburn þegar hafinn í Póllandi. Leikur tyrkneska liðsins Besiktas og Tottenham hefst klukkan 17:00 og verður hann sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn.
Mikil meiðsli hafa verið í herbúðum Tottenham undanfarið, en miðverðirnir Ledley King og Michael Dawson eru þó í hópnum fyrir leikinn í kvöld. Calum Davenport er tæpur vegna nefbrots og Anthony Gardner sömuleiðis vegna meiðsla á mjöðm. Talið er að Aaron Lennon verði í hóp Tottenham.
Við minnum á að hægt er að fylgjast með gangi mála í öllum leikjum í Evrópukeppninni á Boltavaktinni hér á íþróttasíðu Vísis, en þar koma fram liðsuppstillingar, spjöld, mörk og skiptingar.